miðvikudagur, mars 29, 2006

ja hér hér

Vinnudagurinn búinn í dag sem betur fer. Við tókum syrpu í íbúðinni í gær og við verðum væntalega fram á nótt að klára svo við getum nú flutt á morgun allt dótið yfir í bílskúrinn. Vá hvað þetta var löng setning :o)Ég er búin að taka mér frí á föstudag til að klára þetta allt saman því á laugardag ætla ég að vera búin að þessu öllu saman og vera í fríi með fjölskyldunni minni. Vinnudagurinn minn var algjörlega brjálaður. Ég var í símanum í allan dag að tala við kúnna. Ég á nú samt að vera sem minnst í símanum því að ég á að vera að gera allt aðra hluti.
Ég var samt svo heppin að hitta stúlku sem var að vinna hjá Eimskip og var í búslóðaflutningum. Hún sagði mér allt sem ég þarf að vita um flutninga erlendis í gámum á vegum Eimskipa. Hún nefndi líka hvað þetta gæti kostað.....kræst hvað þetta er allt dýrt en það verður bara að hafa það. Enn er ekkert að frétta af íbúðarmálum í Odense en það hlýtur að fara gerast. Við þurfum bara að bíða þolinmóð og anda rólega.

þriðjudagur, mars 28, 2006

Súr fnykur

Nennti ekki að fara að pakka í gær heldur hékk ég heima og horfði á American Idol. Var farin að sofa áður en úrslitin voru kunn en á meðan sat maðurinn minn yfir skattskýrslu. Í kvöld ætlum við samt að vera dugleg. Við erum búin að fá pössun fyrir stelpuna og þá er um að gera að drífa sig og rumpa þetta af. Ég verð svo fegin þegar þessi kafli er búinn. Á fimmtudag flytjum við draslið svo loksins og á laugardag er skiladagurinn.
Voðalega er ég eitthvað andlaus í dag....veit ekkert hvað ég á að skrifa. Skiptir ekki öllu máli því að á morgun er komin nýr dagur :o). Nýji fjölskyldumeðlimurinn (rauði og gulllitaði subaru impresa) stendur sig vel og er hörku bíll. Einn galli er þó á gjöf Njarðar að það er sterkur fnykur í bílnum, eins og súr mjólk. Það versta er að við finnum ekki upptökin.

mánudagur, mars 27, 2006

mánudagsþreyta

Ohhhh. Ég nenni ekki að fara í íbúðina í kvöld til að pakka. Það er nógu erfitt að vinna heilan vinnudag á mánudegi. Ég er syfjuð og þreytt því að ekki fékk ég nóga hvíld um helgina. Nú er um að gera að herða hugann og rífa sig upp. Fá sér kvöldmat, svæfa stelpuna og drífa þetta af. Svo er skattskýrslan einnig eftir

sunnudagur, mars 26, 2006

Viðbót

Ég gleymdi því mikilvægasta. Við erum komin með bíl.....Húrra og aftur húrra. Hann tengdarfaðir minn keypti bíl. Við erum nú svoldið dekruð. Hann keypti sem sagt sérstaklega bíl fyrir börnin sín og tengdardætur.
FRÁBÆRT.

Flutt með hægri fótinn.

Flutningar, flutningar og ekkert nema flutningar. Við vorum í allan gærdag og frá hádegi í dag að pakka niður,henda og sortera. Maður ætti eiginlega að flytja á 4-5 ára fresti því að annars hendir maður aldrei neinu. Ég veit ekki hversu mörgum ruslapokum við erum búin að henda í Sorpu. Þetta er heil helling og ég vissi ekki einu sinni að ég ætti sumt af þessu drasli. Allavegana þá gengur þetta ágætlega en það sem kemur mjög á óvart er hve mikið af dóti við erum búin að sanka að okkur í gegnum tíðina. Laugardagsnóttin var fyrsta nóttin sem við gistum heima hjá tengdó. Við sváfum öll þrjú alveg rosalega vel enda þreytt eftir erfiða viku. Við erum búin að koma okkur ágætlega fyrir hérna en okkur vantar pláss fyrir fötin okkar. Það kemur í vikunni en í millitíðinni verða fötin okkar ofaní tösku og einni kómmóðu sem við komum með að heiman. Það ætti að fara vel um okkur hérna....við erum í mjög stóru herbergi með klósetti og æðislegri sturtu. Út úr herberginu fer maður út á verönd og þar er heitur pottur sem við eigum örugglega eftir að nota mikið. Jæja svo er vinnudagur á morgun og við þurfum að skila íbúðinni á laugardag kl 12. Það er eins gott að við notum vikuna vel :o). Jæja mín bíður nautasteik og meððí....Enn og aftur guð sé lof fyrir manninn minn.

föstudagur, mars 24, 2006

Langþráða helgin

Jess, það er komin helgi. Þú yndislega helgi og langþráða helgi. Var ég búin að segja að það er komin helgi :o)
Þetta verður annasöm helgi. Allt á að flytjast út úr íbúinni. Ég held samt að það sé aðeins búið að pakka sirka helming niður í kassa þannig að það er nóg eftir. Aðalatriðið er að í næstu viku þarf ég ekki að pakka meir. Þá er sá kafli búinn í bili. Þá fer ég í vinnuna og kem heim (til tengdó) í hreint og fallegt heimili þar sem að ekki er allt í kössum og viðbjóði og dóttir mín getur leikið sér að vild og þarf ekki að heyra "hættu að taka upp úr kössunum eða hættu að setja skinkubita og ost ofaní kassana" og svo framvegis.
Það er einhvernveginn allt í drasli og allt skítugt þegar verið er að pakka. Manni finnst ekki taka því að baða barnið því að það verður skítugt aftur eftir fimm mínútur. Bjökk og ógeð. Í næstu viku verður þetta sem sagt allt búið sem betur fer. Hins vegar er annað sem tekur við og það er ofnæmi. Ég er sem sagt að fara að búa á heimili þar sem köttur býr og ég hef geggjað ofnæmi fyrir kvikindinu og þ.a.l líkar mér ekkert sérstaklega við kvikindið. Ég er búin að kaupa ævibirgðir af ofnæmistöflum sem að vonandi bjarga mér næstu mánuði. Jæja verð að hætta Hlölli með rauðkáli er kominn á borðið. Guð sé lof fyrir manninn minn sem fæðir mig á hverjum degi. Takk dúllan mín.

fimmtudagur, mars 23, 2006

Frí í vændum

Jæja ég er búin að vera dugleg að pakka í dag og í gær. Þetta er allt að koma og við flytjum örugglega mesta dótið næstu helgi. Öll glös og allir diskar eru nú í kössum og meira að segja dót dóttur minnar er kyrfilega pakkað niður. Ég fékk þær skemmtilegu fréttir í dag að okkur var úthlutað sumarbústað um páskana á góðum stað rétt hjá Borganesi. Ég sé í hyllingum pínu frí með góða bók og DVD. Fara í gönguferðir og gufu og sund. Borða góðan mat og drekka góð vín, spjalla við vini og vandamenn og verja tíma með litla krúttinu mínu. AAAAAAAA þetta verður yndislegt frí, eitthvað sem okkur vantar sárlega á þessu litla heimili okkar. Næstu helgi verðum við flutt, þetta er mjög skrítin hugsun. Heimili okkar síðustu þrjú ár verður tómt. Okkur hefur liðið vel hér og það er góður andi í íbúðinni. Nýju eigendurnir eru að kaupa góða eign og munu hafa það gott hér. Síðustu helgi elduðum við síðustu almennilegu kvöldmáltíðina hér í íbúðinni. Við borðuðum hrygg og rauðkál,gular og grænar baunir, sykurhúðaðar kartöflur og rjómasósu. Jömmilaði.

Eitt að lokum.......Halló litla systir :o)

þriðjudagur, mars 21, 2006

Enn meiri flutningar

Ég er mjög kvörtunargjörn manneskja og ætla að hætta því nú þegar. Hvaða rugl er þetta að vera alltaf að kvarta. Það gengur allt mjög vel hjá mér og mínum og það er það sem skiptir öllu máli. Flestir í kringum mig eru svona þokkalega hamingjusamir og nokkrir eru alveg að springa úr hamingju.
Ég held að þessi flutningur okkar sé alveg að smella saman. Geymsluplássið komið og þessi vika fer í það að ferja dótið á milli. Nú væri ég til í að fá bráðlega tilboð í húsnæði í Odense. Helst eitthvað sérbýli á góðum og barnvænum stað. Má ekki vera minna en 4-ra herbergja og með garði. Ég bið ekki um lítið en þar sem að leiga er svo ódýr í Odense er allt í lagi að láta svolítið eftir sér. Við ætlum líka að vera þarna í fjöldamörg ár þannig að það er best að finna gott húsnæði til að litlu fjölskyldunni líði vel.

mánudagur, mars 20, 2006

Geymsluplássið komið

Það er merkilegt hvað allt saman reddast. Við fengum sem sagt geymslupláss rétt í þessu. Við greiðum ágætis pening fyrir að geyma innbúið okkar í bílskúr hér í bæ. Naumast hvað allt kostar mikla peninga því að fyrir 12 árum eða svo þá leigði ég heila íbúð fyrir þennan pening. Annars gengur allveg ágætlega að pakka en ég nenni ekki að gera nokkurn skapaðan hlut í kvöld.

sunnudagur, mars 19, 2006

Byrjuð að pakka

Þegar ég byrjaði á þessari síðu lofaði ég sjálfri mér að ég myndi blogga á hverjum einasta degi. Ég er búin að brjóta það loforð. Skiptir ekki öllu máli. Annars er það að frétta að við erum byrjuð að pakka. Ég fór út í Kassagerð og keypti 37 stykki af kössum sem að ég sé strax að munu ekki endast lengi. 37 stk kosta um 7000 krónur. Mér finnst fáránlegt að eyða svona miklum fjármunum í kassa. Ég er í stórkostlegum vandræðum með þetta allt saman. Ég hef ekki hugmynd um hverju ég á að henda eða setja í kassa eða fara með til tengdó.
Hafði heldur ekki hugmynd um að ég ætti svona mikið af drasli. Við notum ekki helminginn af þessu svo ég ætti að vera dugleg að henda. Hins vegar er ég í miklum erfiðleikum með það því að kanski í framtíðinni,eða ekki mun ég hafa not við þessa hluti. Inni í stofu hjá mér eru staflarnir af kössum og þetta eru bara hlutir sem að ég nota ekki dagsdaglega.
Það sem er helst að frétta er að við verðum algerlega fjölfötluð að hafa aðeins einn bíl næstu tvo mánuði. Hvernig munum við fara að ? HJÁLP..........Það eru aðeins tveir til þrír mánuðir þangað til við flytjum til Odense þannig að það tekur því ekki að kaupa bíl. Við þekkjum engann sem á auka bíl til að lána okkur þannig að við erum að hugsa um að leigja bíl. Það kostar nú samt slatta af peningum en er þess virði. Ekkert vesen. Í Ástralíu var til sniðug bílaleiga sem hét Rent a Wreck. Við nýttum okkur svoleiðis bílaleigu allan þann tíma sem við vorum þar. En auðvitað er engin svoleiðis bílaleiga hér á landi, allir bílar glænýir.
Verkefni vikunnar er að vera dugleg að pakka svo við getum flutt næstu helgi og komið öllum húsgögnum í geymslu. Þá höfum við heila viku til að þrífa og laga áður en við skilum af okkur íbúðinni. Jé hvað þetta verður allt saman skrítið en mikið hlakkar mig samt til. Ég væri til í að drífa þetta allt saman af og flytja strax til Odense. Það væri samt mjög óhagsýnt að gera það. Við söfnum fullt af peningum með því að vinna og búa hjá tengdó í nokkra mánuði. Þetta á eftir að líða hratt.

þriðjudagur, mars 14, 2006

Tímaleysi

Hvernig á ég eiginlega að hafa tíma í allt það sem á að gera fyrir mánaðarmót. Þann fyrsta apríl er stóri dagurinn því þá skilum við íbúðinni af okkur.
Listi yfir það sem á eftir að gera.
Laga flísar í eldhúsi.
Laga málninguna yfir flísunum milli skápanna og setja lista.
Þrífa íbúðina.
Pakka öllu niður í kassa og flytja herlegheitin.
En hvert? Muna að finna eitthvað geymslupláss.
Segja upp blöðum og internettengingu.
Skrá lögheimili mitt annarsstaðar og láta póstinn vita.
Vinna heilan vinnudag og ala upp stelpuna mína...þvo þvott og allt þetta daglega.
og heilmikið í viðbót.

Annars þá hlakka ég alveg heilmikið til og er eiginlega að deyja úr spenningi að flytja út og fara í nám. Þetta verðu ævintýri.

mánudagur, mars 13, 2006

Raunveruleikinn

Allt í einu varð allt svo raunverulegt. Búin að selja íbúðina, segja upp í vinnunni og á leikskólanum. Shit þetta er að bresta á. Við erum sem sagt að fara að flytja til Danmerkur. Eigum að skila af okkur íbúðinni um mánaðarmótin og flytja inn á tengdó.Vonandi mun sú sambúð ganga slysalaust fyrir sig. Ég á auðvitað eftir að sakna íbúðinnar minnar alveg hræðilega en eins og vitur maður sagði eitt sinn ,,ekki festa þig í dauðum hlutum". Þetta meikar náttúrulega heilmikinn sens og það væri nú viturlegt að lifa eftir þessu. Í augnablikinu þarf ég að minna mig á alla þá kosti sem að þessi flutningur mun hafa í för með sér.

Ég mun hafa meiri tíma fyrir mig, manninn minn og dóttur.
Menntun mun gefa mér bjartari framtíð.
Veðráttan er muuuuuun betri í Danmörku en Íslandi.
Tilbreyting.
Læri nýtt tungumál.
Læri að stóla á sjálfa mig og svo frv.
Stjórna tíma mínum sjálf.

Já ég held að þetta verði bara ágætt. Hlakka bara mjög mikið til þó svo að það verði mikið rót á okkur næstu mánuði. Ég hlakka mikið til að fara í skóla og loksins fann ég nám sem gæti verið alveg hræðilega spennandi.
Viðskipti og tungumál blandað saman í einn hrærigraut....gæti ekki verið betra :-).

sunnudagur, mars 12, 2006

Byrjunin á þessu öllu saman

Afmælisdagur dóttur minnar er í dag. Fyrir slétt þremur árum lá ég á fæðingardeildinni með mitt fyrsta barn í fanginu. Það virðist vera ár og öld síðan þetta gerðist. Afmælisveislan tókst bara ágætlega og litla prinsessan ánægð með daginn.
Þar sem að þessi litla fjölskylda hyggur á flutning til Danaveldis hef ég ákveðið að halda þessa bloggsíðu fyrir vini og vandamenn. Þeir geta þá skoðað síðuna þegar þeir sakna okkur hrrrrriiiikaleeeega. Einnig geta þeir fylgst með litlu prinsessunni vaxa og dafna og við munum vera dugleg að setja inn myndir af okkur við öll tækifæri.

Heyrumst seinna fólk