fimmtudagur, janúar 14, 2010

Hæ hæ allir saman,
Ætli allir séu ekki löngu hættir að kíkja hér inn, samt sem áður finnst mér gaman að setja hér inn fréttir. Seinna meir þegar ég er orðin gömul og grá þá mun ég örugglega skoða færslurnar mínar og minnast góðu gömlu daganna.

Ástæðan fyrir því hversu sjaldan ég skrifa hér inn er tvenns konar, tímaleysi og fréttaleysi. Við lifum bara ósköp venjulegu lífi og þegar eitthvað er að frétta þá hringjum við í þá sem eru okkur næst og segjum frá.

Á morgun hinsvegar er stór dagur hjá þesari litlu fjölskyldu þar sem að Halli er að fara að verja lokaverkefnið sitt fyrir framan kennara og Sensora. Ég vona og VEIT að allt á eftir að ganga vel hjá honum. Ef vel heppnast þá er hann orðinn Tæknifræðingur. Á svona mómentum þá hugsa ég til baka þegar við fluttum til Danmerkur fyrir tæpum fjórum árum. Við kunnum ekki stakt orð í dönsku og skildum ekki stakt orð í dönsku. Halli ákvað nú samt sem áður að skella sér í Háskólanám og ég man svo sérstaklega eftir fyrstu önninni hans. Hann kom heim úr skólanum og ég spurði svo oft,, hvað lærðiru í skólanum í dag" og hann sagði ,,veistu ég hef bara ekki hugmynd um það" Hann skildi sem sagt ekkert hvað gekk á í tímum en alltaf mætti hann. Þegar hann tók sín fyrstu munnlegu próf þá var aðal áhyggjuefnið að hann myndi ekki skilja spurningarnar frá kennurunum eða að hann gæti ekki komið svarinu frá sér á ensk/dönsku :O) Hann hefur, samt sem áður í gegnum allt Háskólanámið, fengið glæsilegar einkunnir.
Á morgun verður sem sagt hans síðasta próf og ég hef fulla trú að hann á eftir að standa sig eins og hetja eins og hann hefur ávallt gert :O)

Kveðja til ykkar allra
Svansa