miðvikudagur, september 26, 2007

Myndbönd og fl


Ísbíllinn kemur alltaf á þriðjudögum í hverfið okkar og hér er Rakel að gæða sér á ís.

Ísabella glöð og kát.

Rakel er byrjuð í fimleikum og hér er hún stolt í nýja fimleikabúningnum sínum.

Um daginn fórum við í dýragarðinn og hér er Ísabella að leika sér meðan við hin borðum nestið okkar.

Rakel er farin að stilla sér upp á öllum myndum. Er orðin svoldið mikil pæja :O)

Hæ hæ
Eins og vanalega er fullt að gerast í litla kotinu okkar. Litlu dömurnar okkar hafa farið á kostum síðustu vikur og alltaf er að bætast í safnið okkar sögur af þeim tveim. Við ættum eiginlega að fara að skrifa niður allt þetta skemmtilega sem þær segja og gera. Ísabella er búin að læra að frussa og nú frussar hún út í eitt. Hún hreinlega froðufellir svo mikil eru átökin. Svo vinkar hún alltaf þegar við við lokum hurðum, kann að klappa og sýnir okkur óspart hvað hún er rosalega stór.Læt eitt frussumyndband flakka af dömunni og annað þar sem hún sýnir listir sínar. Rakel er á fullu að læra stafina og nú getur hún skrifað nafnið sitt og þekkir fullt af stöfum.
Læt þetta duga í bili. Andinn er ekki yfir mér í dag :O)
Verið nú dugleg að skrifa komment eða í gestabókina okkar. Það er alltaf svo gaman að fá kveðjur frá ykkur :O)

Frussumyndbandið


Ísabella að sýna listir sínar

miðvikudagur, september 05, 2007

Útsofin og ánægð


Góðan og blessaðan daginn.
Við Halli situm hér voða rómantísk í kvöld með sitthvora tölvuna í fanginu. Hann að horfa á fræðsluþátt frá Helgu og Daða og ég að blogga :O)
Hér er pínu pistill fyrir ömmur og afa á Íslandi sem hafa alltaf gaman af fréttum af stelpunum. Frænkurnar hafa kanski líka pínu gaman af :O)
Rakel Kara hefur farið á kostum síðustu daga okkur til mikillar ánægju. Hún er orðin SVO stór og fullorðin að það er bara hlægilegt að fylgjast með skottunni.
Myndin af Rakel hér fyrir ofan lýsir einu slíku fullorðinsandartaki sem var bara fyndið. Hún var nýbúin að greiða sjálf og setti svona fínar spennur í hárið. Svo lýsti hún því yfir að hún hefði ekki tíma til að tala við mömmu sína því hún væri UPPTEKIN við að þrífa eldhúsborðið, svo ætti hún eftir að búa um rúmið og þrífa sigtið í þurrkaranum :O)
Sama dag lýsti hún mömmu sína drottningu, pabba sinn Kóng og sig sjálfa prinsessu. ,,Hvað með Ísabellu" spurði ég. Eftir langa umhugsun sagði sú stutta ,,æ hún má bara vera snigill" :O)
Í dag þá vorum við tvær að hlusta á Vísnadiskinn hennar Rakelar og lesa Vísnabókina. Þegar við erum að fletta henni þá tekur sú stutta eftir mynd af gamalli konu með kyndil í hendinni. ,, Hey þetta er konan sem kyndir ofninn minn" segir hún og vitnar í lag sem ég syng alltaf fyrir hana á kvöldin. ,,Afhverju er hún svona leið" segir hún, ég útskýri fyrir henni að hún sé fátæk og eigi litla peninga fyrir mat. ,,En getur hún ekki bara keypt peninga? segir sú stutta.Eftir langa útskýringu afhverju konan sé svona leið á myndinni byrjar neðri vörin á Rakel að titra og endar með þvílíkum gráti yfir þessum ömurlegu aðstæðum konunnar :O)
Ísabella er farin að sofa rosalega vel á nóttunni 7-9-13. Allt þessari frábæru bók að þakka sem við keyptum fyrir stuttu. Þar eru margar sniðugar hugmyndir og þar segir m.a að það sé best að láta svona ung börn sofna á kvöldin milli 18:30 og 19:00. Í gær fór hún t.d að sofa kl 18:30 og svaf til 6:30 um morguninn :O) Vaknaði reyndar einu sinni í nótt en sofnaði bara strax aftur. Þetta ásamt fleirum atriðum í bókinni er að gera mikla lukku hér á heimilinu og við erum útsofin og ánægð.
Ekki meir í bili gott fólk
Bið að heilsa ykkur
Knús frá Svönsu, Halla, Rakel Köru og Ísabellu Katrínu.