laugardagur, júní 23, 2007


Rakel Kara blómarós

Nammi namm sveskjumauk

Ýtir sér út um allt

Áttum svo skemmtilegan dag að ég verð barasta að deila honum. Byrjuðum daginn á hjólatúr um sveitina hér um kring. Keyptum hjól handa mér í vikunni og hjólavagn fyrir Ísabellu og því getum við öll farið í stuttar hjólaferðir. Við hjóluðum í kringum hveitiakra og baunaakra,milli sveitabæja og inn í skóginn. Þetta er orðið nýjasta áhugamál okkar allra og er alveg þrælskemmtilegt :O) Eftir hjólatúrinn settumst við út í garð og borðuðum nestið okkar og höfðum það kósí.
Á Íslandi er Jónsmessan í kvöld en hér í DK heitir það Skt. Hans dag. Fraugdebúar halda þennan dag hátíðlegan með því að halda skemmtun út í skógi. Við grilluðum pylsur, hlustuðum á lifandi tónlist og horfðum á brennuna. Rakel lék sér við krakkana á meðan við höfðum það huggulegt með bæði dönskum og íslenskum nágrönnum okkar. Á eftir löbbuðum við heim enda stutt að fara. Á leiðinni heim var búið að kynda upp í annarri brennu í götunni á móti okkur og svo var lítil flugeldasýning.
Svona eiga allir dagar að vera:O)

Halli að grilla pylsur


Bálið mikla út í skógi

og auðvitað voru nokkrar nornir brenndar á bálinu :O)

Verið nú dugleg að kvitta í gestabókina eða skrifa komment. Það er svo gaman að sjá hver les þetta litla bull í mér :O)
Sumar og sólarkveðja frá Danmörku
Svansa og Co

þriðjudagur, júní 19, 2007

Húrra, Húrra

Hann Halli náði prófinu sínu með glæsibrag :O) Hann fékk 9 í einkunn og fékk góða dóma bæði fyrir dönskuna sína, svör og verkefni. Í tilefni dagsins fór hann út að borða í hádeginu með verkefnisfélögum sínum. Nú erum við komin í langt og gott sumarfrí. HHÚÚÚRRRRA :O) Við verðum s.s í fríi saman rest af júní mánuði og allan júlímánuð. Stefnan er svo tekin til Íslands í ágúst til að vinna pínu og safna pening.
Aggi er að fara í sitt síðasta próf á morgun og flýgur síðan til Íslands á morgun. Þess vegna fengum við okkur gott að borða og spjölluðum fram á rauða nótt með nágrönnum okkar þeim Rósu og Sveini. Svona til að kveðja hann og til að fagna prófl0kum Halla.
Við erum búin að redda hjólum fyrir ferðalangana sem koma til okkar í enda júní. Vonandi förumvið saman í marga og góða hjólatúra um sveitir Danmerkur. :O)
Jæja klukkan er orðin svo margt.
Faðm og kossar frá okkur ;O)

mánudagur, júní 18, 2007

Prófdagurinn mikli á morgun

Stóri hræðilegi prófdagurinn er á morgun. Í fyrramálið kemur í ljós hvort Halli muni klára sitt fyrsta ár í byggingartæknifræði hjá Syddansk Universitet. Hann hefur verið að læra undir sjö fög undanfarna daga því það er aðeins eitt próf fyrir þau öll. Þetta er þvílíkur lestur og það er mikið stress í þessu litla koti okkar. Í ofanálagi er þetta munnlegt próf og ekki erum við búin að dúxa dönskuna ennþá þó svo að við höfum búið hér í eitt ár. Á morgun þarf hann líka að verja verkefnið sitt sem hann hefur verið að vinna að alla þessa önn, á dönsku :O) Honum hefur gengið mjög vel hingað til og vonandi heldur það áfram. Þetta kemur allt í ljós eftir hádegi á morgun.
Fyrir utan prófstrtess er allt gott að frétta :O) Allir frískir :O). Ísabella er byrjuð að fara um allt gólf og er alltaf brosandi og hlæjandi. Hún borðar flestallan mat, maukaðan að vísu enda vantar allar tennur ennþá. Í dag fékk hún í fyrsta skiptið maukað pasta og brokkolí og fannst það æðislegt eins og allur matur sem hún leggur sér til munns. Þvílíkt matargat þessi stelpa. Ég blandaði fjórum sinnum í grautarskálina í dag og hún var enn svöng. Allar myndir sem ég tek af henni þessa dagana er hún brosandi,ég verð að fara að setja þær inn á barnalandssíðuna okkar.
Rakel talar mikið um ömmur sínar og afa þessa dagana. Ætlar sko í heimsókn til þeirra og ef ég vil ekki koma með þá ætlar hún sko alein :O) Fattar ekki alveg fjarlægðina á milli Ísland og Danmerkur :O) Ég missti út úr mér að amma Elsa og Afi Einar væru að koma í heimsókn og þess vegna eru ömmurnar og afarnir svona ofarlega í huga hennar þessa stundina. Hún telur niður dagana þetta grey og hlakkar mikið til að sjá þau.
Ég sjálf hlakka mikið til að komast í frí. Þetta er búið að vera ágætis próftörn og auðvitað er meira að gera hjá mér þegar Halli er að lesa fyrir próf. Svo verður líka gaman þegar allt þetta próftarnarstress er farið. Vonandi kemur Halli heim úr prófinu með bros á vör en það kemur allt í ljós á morgun.
Góða nótt kæra fólk,
Svansa og Co

mánudagur, júní 11, 2007

Halli og Svansa partíljón


Bríet og Rakel Kara í sól og sumaryl

Fraugdeveislan góða

Svona lítur garðurinn minn út eftir skemmtilegan sólardag, allt á rúi og stúi. :O)

Góðan dag, góðan dag góða fólk.
Aðalástæðan að ég held þetta frábæra blogg er að segja fólki frá lífi okkar hér í Dk. Á okkar bæ er alltaf nóg um að vera og þess vegna nóg um skrif. :O)
Hér er búið að vera algjör sólarparadís, 30 stiga hiti og heiðskír himinn. Erum búin að borða úti í garði hvert einasta kvöld. Höfum reyndar borðað í bakgarðinum, í forsælu undanfarið því sólin er að steikja okkur, þó svo að klukkan sé 8 um kvöld.
Í sumar og sól er hægt að hafa margt fyrir stafni. Fórum m.a í Egeskov síðustu helgi. Þar er stór og mikil höll og herragarður í kring. Spókuðum okkur um í góða veðrinu og fengum okkur síðan gott að borða. Svo héldum Fraugdekvöld fyrir stuttu þar sem allir íslenskir Fraugdebúar mættu á svæðið og grilluðu. Gæddum okkur á nautakjöti og tilheyrandi og skemmtum okkur konunglega fram á nótt. Krakkarnir léku sér úti til klukkan 23 í góða veðrinu. Næsta Fraugdekvöld verður örugglega stærra því fleiri Íslendingar eru að flytja í bæinn. Við Halli og Ísabella skelltum okkur í bæjarferð í vikunni meða Rakel var í leikskólanum. Miðbær Odense er glæsilegur og alltaf gaman að rölta um göturnar og kíkja í búðarglugga.
Við erum búin að vera mörg í heimili síðustu daga. Aggi, Elín og Svenni hafa gist hjá okkur þessa síðustu daga sem þau verða hér í DK. Við Elín höfum verið í daglegu sambandi í heilt ár og það verður svoldið sárt að geta ekki hitt hana daglega .Við sjáum þau nú kanski í ágúst því þá er stefnan er tekin á litla Íslandsdvöl.
Nú áðan fórum við eftir kvöldmat í litlan göngutúr út í skóg. Settum Ísabellu í náttföt og héldum nú að hún myndi sofna á leiðinni. En nei, hún er soddan selskapsbarn að hún fór ekki að sofa fyrr en seint og síðar meir. Rakel Kara er kát að vanda en saknar ömmu Elsu, afa Einars, ömmu Rannveigu og afa Hallgríms. Vildi alveg endilega fara í heimsókn til þeirra í dag og sagðist elska þau alveg rooooooooosalega mikið :O) Við verðum greinilega að vera duglegri að koma til Íslands.
Mamma, Pabbi, Jóhanna María og Danni eru svo væntanleg síðar í mánuðinum. Það verður alveg frábært að fá þau. Þó svo að við fáum ekki heimþrá þá fáum við það sem kallast fjölskylduþrá því auðvitað söknum við þeirra alveg rosalega mikið. Við erum búin að redda hjóli fyrir Danna frænda og því þarf hann að taka hjálminn með sér. Hér í hverfinu okkar er hjólabrettavöllur þar sem krakkarnir eru á hjólum, hlaupahjólum og hjólabrettum að leika sér. Ætlum svo að redda fleiri hjólum fyrir restina af fólkinu því hér er tilvalið að fara í hjólatúra með gott nesti með sér.
Jæja þetta er gott í bili.
Heyrumst og sjáumst sem fyrst gott fólk.
Knús og rembingsknús frá Svönsu, Halla, Rakel og Ísabellu.

miðvikudagur, júní 06, 2007

Fyrsta prófið búið

Hæ hæ vinir og vandamenn,
Fyrsta prófið hans Halla er afstaðið :O) Guð sé lof hahaha. Hann stóð sig með sóma og fékk 8 í einkunn þrátt fyrir svefnlausa nótt og lítinn lærdóm. Ísabella hefur nefnilega verið lasin og ekki sofið vel , hvorki á daginn né á nóttunni. Síðustu nótt svaf hún gjörsamlega ekki neitt þannig að Halli fór ósofinn í prófið. Ég reyndi eins og ég gat að vera niðri í stofu með Ísabellu í nótt en dönsk hús eru eins og pappakassi þ.e ef einhver hvíslar uppi á efri hæð liggur við að maður heyri það niður í stofu. Rakel greyið fór ósofin í leikskólann sinn, mjög fúl og uppstökk. Vildi helst vera heima og sofa. Hætti samt snögglega við þegar ég sagði henni að það væru ekki neinir krakkar að leika við í dag því þeir væru allir í skólunum sínum.
Það er mikið að gerast hjá okkur framundan. Aggi, Elín og Svenni ætla að gista hjá okkur í nokkra daga, Aggi reyndar lengur því hann þarf að klára prófin sín. Síðan eru þau flutt til Ísands :O( Jöggi og Jóna hafa hugsað sér að kíkja til okkar um helgina og gista, síðan er stutt í mömmu, pabba, Jóhönnu og Danna.
Nú er klukkan að verða 23 og hitastigið er 18 gráður og spáin út vikun alveg frábær. Hlakka bara til næstu daga, ætla að njóta veðurblíðunnar og taka garðinn minn í gegn.
Bið að heilsa ykkur öllum kæra fólk.
Kveðja Svansa og co

föstudagur, júní 01, 2007

Vá mikið að gerast í dag.

Þetta er búinn að vera annasamur en rosalega skemmtilegur dagur. Vöknuðum náttúrulega snemma eins og vanalega og þegar Rakel og Halli voru farin í skólann fórum við Ísabella ásamt fleirum í langan göngutúr niður í Norribjerg í kaffi til Karlottu. Rétt svo náðum að labba heim þegar tími var kominn á að fara í 25 ára afmælisveislu leikskólans hennar Rakelar Köru. Þetta var mjög fín veisla með flottum skemmtiatriðum og veitingum (Bjór og hvítvín). Það var alveg frábært veður, kanski aðeins of heitt :O)Allir sátu úti og drukku og átu og skemmtu sér vel. Þegar heim var komið var síðan farið í afmæliskaffi til hennar Rósu nágrannakonu og þar sátum við fram að kvöldmat.
Að lokum vil ég senda elsku Jóhönnu litlu systur litla kveðju.

Til hamingju með 20 ára afmælið og einnig með útskriftina í dag. Ég hefði alveg vilja vera með þér á þessum skemmtilega og merka degi. Hef hugsað til þín í allan dag. Skemmtið ykkur nú vel á Grillinu í kvöld :O) Rembingsknús og koss frá okkur öllum. Hlakka svo til að sjá ykkur :O)

Læt eitt lítið myndband fylgja með að þessu sinni. Þær eru náttúrulega endalaust sætar þessar dætur mínar :O)