Prófdagurinn mikli á morgun
Stóri hræðilegi prófdagurinn er á morgun. Í fyrramálið kemur í ljós hvort Halli muni klára sitt fyrsta ár í byggingartæknifræði hjá Syddansk Universitet. Hann hefur verið að læra undir sjö fög undanfarna daga því það er aðeins eitt próf fyrir þau öll. Þetta er þvílíkur lestur og það er mikið stress í þessu litla koti okkar. Í ofanálagi er þetta munnlegt próf og ekki erum við búin að dúxa dönskuna ennþá þó svo að við höfum búið hér í eitt ár. Á morgun þarf hann líka að verja verkefnið sitt sem hann hefur verið að vinna að alla þessa önn, á dönsku :O) Honum hefur gengið mjög vel hingað til og vonandi heldur það áfram. Þetta kemur allt í ljós eftir hádegi á morgun.
Fyrir utan prófstrtess er allt gott að frétta :O) Allir frískir :O). Ísabella er byrjuð að fara um allt gólf og er alltaf brosandi og hlæjandi. Hún borðar flestallan mat, maukaðan að vísu enda vantar allar tennur ennþá. Í dag fékk hún í fyrsta skiptið maukað pasta og brokkolí og fannst það æðislegt eins og allur matur sem hún leggur sér til munns. Þvílíkt matargat þessi stelpa. Ég blandaði fjórum sinnum í grautarskálina í dag og hún var enn svöng. Allar myndir sem ég tek af henni þessa dagana er hún brosandi,ég verð að fara að setja þær inn á barnalandssíðuna okkar.
Rakel talar mikið um ömmur sínar og afa þessa dagana. Ætlar sko í heimsókn til þeirra og ef ég vil ekki koma með þá ætlar hún sko alein :O) Fattar ekki alveg fjarlægðina á milli Ísland og Danmerkur :O) Ég missti út úr mér að amma Elsa og Afi Einar væru að koma í heimsókn og þess vegna eru ömmurnar og afarnir svona ofarlega í huga hennar þessa stundina. Hún telur niður dagana þetta grey og hlakkar mikið til að sjá þau.
Ég sjálf hlakka mikið til að komast í frí. Þetta er búið að vera ágætis próftörn og auðvitað er meira að gera hjá mér þegar Halli er að lesa fyrir próf. Svo verður líka gaman þegar allt þetta próftarnarstress er farið. Vonandi kemur Halli heim úr prófinu með bros á vör en það kemur allt í ljós á morgun.
Góða nótt kæra fólk,
Svansa og Co
2 Comments:
Já ég vona svo sannarlega að Halli nái þessu prófi, enda er búið að leggja mikla vinnu í þetta.
Ég fékk bara nett spennufall þegar að Ívar kláraði loksins þessa próftörn.. ligg bara með tærnar upp í loft og nenni ekki neinu :(
Kíki kannski í heimsókn annað kvöld ef að þú ert ekki of upptekin :)
Kveðja Sigga Vigga og co
8:26 f.h.
Oj, ég hata munnleg próf, þau eru svo óþægileg eitthvað, en þau ganga venjulega bara nokkuð vel svo maður þarf aldrei að hafa áhyggjur, allavega ekki þessar massífu áhyggjur sem maður hefur venjulega...
Ég er farin að hlakka alveg óbærilega mikið til þess að koma út til ykkar að sjá ykkur og í góða veðrið, þó það hafi verið gott veður hjá okkur undanfarna daga, það er bara alltaf allt miklu meira spennandi í útlöndum, hvernig sem veðrið er...
2:45 e.h.
Skrifa ummæli
<< Home