fimmtudagur, janúar 14, 2010

Hæ hæ allir saman,
Ætli allir séu ekki löngu hættir að kíkja hér inn, samt sem áður finnst mér gaman að setja hér inn fréttir. Seinna meir þegar ég er orðin gömul og grá þá mun ég örugglega skoða færslurnar mínar og minnast góðu gömlu daganna.

Ástæðan fyrir því hversu sjaldan ég skrifa hér inn er tvenns konar, tímaleysi og fréttaleysi. Við lifum bara ósköp venjulegu lífi og þegar eitthvað er að frétta þá hringjum við í þá sem eru okkur næst og segjum frá.

Á morgun hinsvegar er stór dagur hjá þesari litlu fjölskyldu þar sem að Halli er að fara að verja lokaverkefnið sitt fyrir framan kennara og Sensora. Ég vona og VEIT að allt á eftir að ganga vel hjá honum. Ef vel heppnast þá er hann orðinn Tæknifræðingur. Á svona mómentum þá hugsa ég til baka þegar við fluttum til Danmerkur fyrir tæpum fjórum árum. Við kunnum ekki stakt orð í dönsku og skildum ekki stakt orð í dönsku. Halli ákvað nú samt sem áður að skella sér í Háskólanám og ég man svo sérstaklega eftir fyrstu önninni hans. Hann kom heim úr skólanum og ég spurði svo oft,, hvað lærðiru í skólanum í dag" og hann sagði ,,veistu ég hef bara ekki hugmynd um það" Hann skildi sem sagt ekkert hvað gekk á í tímum en alltaf mætti hann. Þegar hann tók sín fyrstu munnlegu próf þá var aðal áhyggjuefnið að hann myndi ekki skilja spurningarnar frá kennurunum eða að hann gæti ekki komið svarinu frá sér á ensk/dönsku :O) Hann hefur, samt sem áður í gegnum allt Háskólanámið, fengið glæsilegar einkunnir.
Á morgun verður sem sagt hans síðasta próf og ég hef fulla trú að hann á eftir að standa sig eins og hetja eins og hann hefur ávallt gert :O)

Kveðja til ykkar allra
Svansa

sunnudagur, maí 24, 2009

Sól og sæla í Danaveldi






































.


Hejsa,
Það er allt gott að frétta af okkur. Við erum búin að vera í fjögurra daga fríi, algjör lúxus. Við erum búin að vera svo heppin með veður að við höfum varla farið inn fyrir hússins dyr. Fríið fór í allskonar stúss fyrir heimilið, reyta arfa, slá, þvo glugga, kaupa og setja upp þvottasnúrur, bera á gras og tré og hér fyrir ofan má sjá afraksturinn. Flottur og fínn garður. Reyndar skemmtum við okkur líka í fríinu og fórum m.a í dýragarðinn með nesti og eyddum hálfum degi þar. Fórum í göngutúr í skóginum í Fraugde, elduðum góðan mat og spiluðum með Írisi og Bjössa Partý og co og drukkum ponsu rautt með.


Á mánudag byrjar alvara lífsins aftur, próflestur og verkefnavinna. Aðeins ein og hálf vika í fyrsta prófið mitt, ó mæ god :O) Alltaf svo stressandi þessi munnlegu próf. Ég klára 11 júní og er þá komin í langt og gott sumarfrí :O)


Ég reyndi að setja inn myndbönd af stelpunum en það gekk ekki þannig að ég setti inn nokkrar myndir í staðinn
Þar til síðar
Svansa pansa





miðvikudagur, apríl 01, 2009

Jæja

Nú er kominn tími á ponsu blogg eins og ég lofaði. Af okkur er allt ljómandi að frétta. Það er brjálað að gera hjá mér í skólanum, ég hef verið að læra 10 til 12 tíma á dag allllt of lengi. Ég hef nú passað mig að læra ekki milli fjögur og sjö þegar stelpurnar eru heima og bara á kvöldin um helgar. Samt sem áður kemst ég ekki yfir helminginn af námsefninu sem okkur er sett fyrir. Ég vona bara að prófin fari vel, ef ekki þá veit ég að ég gerði mitt allra besta :O)En vitið þið hvað....mér finnst alltaf gaman að mæta í skólann og á kvöldin þá sest ég glöð fyrir framan tölvuna og byrja að læra. Þannig að ég hlýt að vera á réttri braut :O)

Halli er ánægður í vinnunni sinni og fær allskonar alvöru byggingatæknifræði verkefni. Hann situr frá 8 til 4 og reiknar burðarþolsreikninga og það er það sem hann hefur áhuga á. Hann fær nudd einu sinni í viku í vinnunni sinni og svo talar hann mikið um allan matinn sem hann fær. Svo á föstudögum er gengið á milli borða með bjórkörfu og ef einhver á afmæli þá fá allir brennivínsskot :O)


Rakel Köru er farið að leiðast á leikskólanum enda er hún meira en tilbúin að byrja í skóla. Hún stækkar og stækkar og enn og aftur eru allar buxur orðnar of litlar :O) Á morgun fer hún með skólahópnum í H.C Andersen hus að horfa á leikritið Ljóta andarungann. Hún gat varla sofnað í kvöld af spenningi. Henni finnst svo gaman að fara i leikhús og hún talaði lengi um Skilboðaskjóðuna sem hún fór á með Rannveigu ömmu sinni.


Ísabella er alltaf að læra að tala meira og meira. Það er svo gaman að spjalla við hana :O) Í dag þá spurði ég hana hvort hún vildi ekki ganga frá bókinni sem hún var að lesa en sú stutta svaraði bara " ég svo illt í fótunum, ég getur ekki". Sú stutta er sem sagt farin að svara fyrir sig.


Ég hef ekki verið dugleg að taka myndir en hér eru nokkrar frá Festelavn eða Öskudegi eins og dagurinn kallast á íslandi. Rakel var öskubuska og Ísabella var ballett dansmær :O)Í horninu er lítill djöfsi....besti vinur Rakelar Köru, hann heitir Rúnar Ingi.




Kötturinn var sleginn úr tunninni í götunni okkar....það var svoldið kalt eins og sést á þessari mynd.




Þarna sést í hópinn og líka í Rakel og Ísabellu


þriðjudagur, mars 31, 2009

ponsu update

Váá hvað það er langt síðan ég hef skrifað hér :O) Ég lofa að bæta úr því fljótlega....við höfum bara haft svo mikið að gera síðustu vikur:O) Ég hef varla litið upp úr bókunum síðan ég byrjaði aftur í skólanum í febrúar. Annars er bara allt fráábært að frétta og allt í lukkunar standi. Heyri í ykkur seinna ,
knús Svansa

föstudagur, janúar 16, 2009

Prófin búin og nú byrjar næsta önn :O)

Hæ hæ fólkið mitt, langt síðan síðast:O)



Mikið er gaman að skrifa hér og láta alla vita að ég hef formlega lokið fyrstu önninni í Global Management and Manufacturing. Þetta var löng og ströng próftörn og eins og vanalega, þá gekk allt á afturfótunum hjá okkur þegar við mátttum ekki við því. Ég og Halli vorum bæði að lesa eins og brjálæðingar þegar bíllinn okkar hrundi bókstaflega niður, rafmagnið í hálfu húsinu datt algjörlega út, Ísabella lasin og ég lasin. Ég veit ekki hvernig við hefðum farið að ef góðir vinir hefðu ekki komið okkur til hjálpar :O)Takk fyrir okkur Íris og Björn.



Anyways, ég kláraði formlega í gær og í tilefni dagsins ákváðum við Halli að skála í kampavíni til að fagna þessum merka áfanga og líka því að Halli gekk út úr sínu prófi , sama dag, með 10 í einkunn. Við vorum nú ekki falleg að sjá, ég með 38 stiga hita og flensan að skella á Halla greyinu líka, húsið á hvolfi, bækur út um allt :O) En það skipti engu máli, við vorum svo stollt af okkur fyrir að halda þetta út og ná prófunum með svona frábærum einkunnum.



Nóttina fyrir síðasta og stærsta prófið mitt vaknaði ég með 38 stiga hita og ég hélt hreinlega að ég kæmist ekki í prófið. Ég fór nú samt og mitt markmið var bara að standast prófið og ekkert annað. Ég hafði ekki getað lært mikið sökum þess að ég og Ísabella vorum báðar lasnar. Ég gekk út úr prófinu með 12 í einkunn sem er hæsta einkuninn í danska skalanum eða eins og 10 í þeim íslenska. Kennarinn minn og sensorinn sögðu að frammistaða mín hefði skarað frammúr öllum hinum og að þau væru ekki ekki í neinum vandræðum með að gefa mér 12 í einkunn :O)Já þetta get ég :O) Ég enda s.s fyrstu önnina mína með 10 í meðaleinkunn á danska skalanum eða 9 á þeim íslenska.



Í kvöld lagðist svo síðasti fjölskyldumeðlimurinn í bólið með flensuna s.s Rakel. Svoldið fyndið að segja frá því að hún vissi ekki einu sinni af því að hún væri veik. Hún var bara að leika sér, þegar mér fannst hún eitthvað glaseygð og ég ákvað að eyrnamæla hana. Þá var greyið komin með 38,7 stiga hita og hún sagði bara HAAAAAAAA, er ég orðin veik,má ég þá ekki fara út að hjóla á morgun? :O)


Við biðjum að heilsa öllum á Íslandi.
Mamma, pabbi, Rannveig og Hallgrímur þúsund þakkir fyrir okkur þessar tvær vikur sem við vorum á Íslandi. Nú er það ekki bara ein stelpa, heldur tvær sem tala um ykkur daglega :O)
Þar til næst
Svansa og familía

fimmtudagur, nóvember 20, 2008

Hæ hæ
Litla snúllan, Ísabella er búin að vera með yfir 40 stiga hita núna í 3 sólarhringa. Við höfum bara haldið hitanum niðri með stílum á fjögurra tíma fresti. Vonandi verður hún betri á morgun. Burtséð frá þessu þá er allt fínt að frétta. Það fæddust tvö íslensk Fraugdebörn á síðustu dögum, strákur og stelpa :O) Eitt þeirra býr við hliðina á okkur. Skólinn hjá mér gengur stórvel, er búin að taka tvö próf og hef verið með þeim hæstu í bekknum í bæði skiptin. Projectið gengur líka rosa vel, erum á síðustu metrunum og verðum búin með það langt fyrir skil. Síðustu vikur hafa verið þvílíkt annasamar og ég og Halli erum orðin svoldið þreytt á þessu annríki okkar. Þrátt fyrir það hefur þetta allt saman verið mjög skemmtileg :O) Okkur vantar bara að komast í ponsu frí til að safna kröftum. Halli er í eldhúsinu að baka bollur fyrir leikskólann. Eftir að leikskólinn brann þurfa foreldrar að baka bollur fyrir börnin. Við áttum að baka í síðustu viku fyrir Rakel og gleymdum því auðvitað. Uppgötvuðum það kl 6 á föstudagsmorgni og byrjuðum í flýti að baka :O) Þetta tókst nú allt saman fyrir kl 8 og leikskólinn var hæstánægður með nýbökuðu og heitu bollurnar okkar :O) og nú er víst aftur komið að okkur að baka, fyrir Ísabellu :O) Rakel Kara er búin að missa tvær tennur og sú þriðja er orðin laus :O) Þvílíkt krútt hefur aldrei sést :O)
Ísabellu byrjaði að telja upp á 10 á íslensku í byrjun sumars og nú kann hún líka að telja upp á 10 á dönsku. Hún kann reyndar líka á alla litina og svo kann hún líka 100,200 og alveg upp í 100. Æ, hún er algjör páfagaukur og apar upp allt sem maður segir. Við Halli erum oft mjög undrandi yfir orðaforðanum sem barnið hefur :O) Í dag sá hún að systir sín var sokkalaus og ætlaði að bjarga málunum. Fór í skápinn sinn og náði í sokka og hljóp á eftir systur sinni og æpti Lakel Kaða í sokkana (Rakel Kara í sokkana)......æ greyið er ekki orðin tveggja ára og er strax farin að segja stóru systur sinni fyrir verkum :O)Sokkarnir voru náttúrulega allt of litlir og Rakel tók ekki í mál að fara í allt of litla sokka. En sú litla, tók ekki annað í mál og elti hana út um allt :O) Ísabella var líka fyrir stuttu að lesa bók sem amma Rannveig gaf henni þegar hún kom til okkar síðast. Allt í einu, upp úr þurru, kallar hún, amma, hvar ertu amma mín , hvar ertu amma:O) Svo fór hún inn í gestaherbergi að leita að ömmu sinni :O) Hún mundi greinilega hver gaf henni bókina :O) Sumir foreldrar skrifa allt í bók um börnin sín en ég hef ákveðið að skrifa þetta allt hér. Svo prenta ég þetta út og sýni þeim þegar þær verða eldri.
Anyways......mikið að gera á næstu dögum og vikum. Ég fer í tvö ekta dönsk jólahlaðborð, eitt með bekknum mínum og eitt með nágrönnunum. Ég hlakka þvílíkt til, enda er það loks núna sem við Halli erum að komast inn í danska samfélagið. Það nennir nebblilega enginn að tala við ótalandi manneskju :O) og svo er bara að jólast og skólast og hafa gaman af :O)
Þar til síðar gott fólk.
Knús á múttu og pápa og systkyni mín, hlakka til að sjá ykkur um jólin.
Verið svo dugleg að kommenta,,,,,,,,,,ég blogga ekki aftur fyrr en fjórir eru búnir að kommenta :O) og hana nú :O)

laugardagur, október 18, 2008

kominn tími á ponsu blogg,,,,er það ekki

Mikið rosalega er skrítið að búa erlendis á svona tímum, að horfa á ástandið heima fyrir úr fjarlægð. Hér sitjum við kvöld eftir kvöld og horfum á íslenskar fréttir og kastljós til að reyna að ímynda okkur hvernig ástandið er heima á Íslandinu góða. Af okkur er allt gott að frétta, höfum ekki fundið fyrir kreppuni ennþá enda millifærðum við, einhverja hluta vegna, tvöfallt um síðustu mánaðarmót. Við eigum því nóg út nóvembermánuð en við þekkjum marga hér sem eru í vandræðum peningalega séð. Það er víst ekki nóg að eiga peninga á Íslandi þegar millifærslur á milli landa eru bönnuð í augnablikinu. Við vonum bara að þetta ástand lagist nú fljótlega.

Við höfum haft mikið að gera síðustu vikur enda erum við Halli núna bæði á fullu í skólanum. Okkur vantar nokkra klukkutíma í sólarhringinn, svo mikið er víst ;O) En mikið finnst okkur lífið okkar gott og skemmtilegt hér í DK. Við eigum alveg frábæra vini, stelpurnar elska leikskólann sinn og okkur finnst námið okkar skemmtilegt og áhugavert.

Síðustu tvær vikur höfum við gert margt til dundurs. Rannveig kom í heimsókn til okkar og var hjá okkur í viku. Við höfðum ekki séð hana í marga mánuði og öll vorum við spennt að fá hana í heimsókn, sérstaklega Rakel Kara sem taldi niður dagana. Við höfðum það rosa notalegt og spjölluðum mikið og átum góðan mat og drukkum góð vín. Enda erum við miklir sælkerar :O)Okkur fannst öllum erfitt að kveðja hana og Ísabella spurði eftir henni í marga daga á eftir:O) alltaf að spyrja um ömmu sína.
Við höfum verið í haustfríi alla vikuna og haft það notalegt þó svo að við Halli höfum reynt að læra fyrir hádegi. Hér erum við í Tívolíi og það fannst stelpunum æðislegt, sérstaklega Rakel Köru sem fór í flest öll tækin. Ísabella töffari var hinsvegar skíthrædd við að fara í tækin en fannst skemmtilegt að horfa á öll ljósin og sagði bara vááá hátt hátt upp í himininn :O)

Hér erum við að borða hádegismatinn okkar, heimatilbúið nesti namm.


Rakel í risa risa rennibraut


Rakel í tívolírólum

og auðvitað þurfti pabbinn að prufa líka ;O)

Svo þurfti Ísabella aðeins að hvíla sig og svaf eins og steinn í öllum hávaðanum.
Hér erum við að skera út grasker í tilefni Halloween.
og hér er svo afraksturinn

Svo var farið í hrekkjavöku afmælisveislu og Ísabella var klædd sem Solla stirða.

og Rakel var Mjallhvít.....æ þær eru svo sætar að kyssast.
Við biðjum öll voða vel að heilsa. Hugur okkar er auðvitað oft heima á Íslandi, Hollandi og Argentínu, hjá okkar nánustu. Okkur hlakkar mikið til að koma og hitta ykkur öll yfir jólin.
Knús og kossar til ykkar
Kveðja Svansa, Halli. Rakel og Ísabella.