miðvikudagur, október 11, 2006

Skólarnir okkar

Hæ,hæ vinir og vandamenn :o)
Ég er loksins byrjuð í skólanum eftir marga og notalega frídaga. Nú þarf að ræsa liðið klukkan 6:40 á mánudögum - miðvikudögum og föstudögum svo allir komist nú á réttum tíma í skólana sína. Á þriðjudögum og fimmtudögum ætlum við Rakel að sofa út til 8:00 því þá er ég í fríi og hún þarf ekki að vera mætt á leikskólann fyrr en 9:30. Skólinn virkar mjög vel á mig og ég kann vel við alla kennarana og þá nemendur sem ég hef kynnst.
Halli var að fá út úr fyrsta prófinu sínu, eðlisfæði og stærðfræði. Honum gekk svona ljómandi vel og varð þriðji hæstur með einkunnina níu. AF 25 nemendum sem tóku prófið voru 12 sem féllu með einkunnina þrjá þannig að hann er vel fyrir ofan meðaltal.
Rakel Köru gengur sem betur fer einnig vel í sínum skóla. Hún var í voða fínni myndatöku í gær þar sem fenginn var atvinnuljósmyndari til að taka myndir af leikskólabörnunum. Foreldar geta síðan keypt misstóra ljósmyndapakka ef þeir vilja. Þetta er gert árlega og er alveg stórsniðugt því ljósmyndarinn er þrælgóður og myndirnar ódýrar.


Það er nú gott að okkur gengur öllum vel hér í DK :o)

fimmtudagur, október 05, 2006

Ja hér hvað tíminn líður.

Já, hugsið ykkur, það er kominn október. Það er að byrja að hausta hér í Danmörku eftir hreint geggjað sumar. Grasið og tréin eru þó enn græn en maður sér laufblöðin liggja á götunni. Hitastigið fór í fyrsta skiptið niður fyrir 20 gráður um miðjan dag í vikunni og þá er heldur betur kominn tími til að fara upp á háaloft og skipta út sumarfötunum í haust- og vetrarfötin. Hlírarbolurinn og pilsið dugar ekki lengur heldur er síðbuxna- og langermabola tímabilið að hefjast. Verst er að Muggarnir eru enn á kreiki og ég fékk átta stungur í handlegginn í nótt. Það virðist sem þeir sogast að mér þessa dagana en láta alla aðra í friði:o(
Við Rakel erum búnar að vera með flensu síðustu daga og höfum verið heima. Það hefur verið mjög erfitt að halda henni inni síðustu daga enda vill hún endalaust vera úti að leika sér. Sem betur fer þá unir hún sér best úti enda er ekkert hollara en mikil og góð útivera.
Ég fór í sónar á þriðjudaginn og það gekk allt saman mjög vel. Barnið virðist vera heilbrigt og stækkar vel. Það er strax að verða sjö merkur en á síðustu vikunum þá þyngist barnið mest. Það hefur því átta vikur til að komast upp í 14 merkur (vonandi ekki meir). Því miður gat ljósmóðirin ekki verið alveg 100% viss um kyn barnsins en hún sagðist vera næstum viss um að þetta væri lítið stúlkubarn. Hún bætti því jafnframt við að það gæti alltaf leynst lítill pungur sem hún sæi ekki.
Samkvæmt öllum kellingabókum þá á ég að ganga með strák. Kúlan er neðarlega og mittið er löööööngu farið. Ég er með týbíska strákakúlu og nágrannakona mín sem segist alltaf hafa rétt fyrir sér í svona málum segir að ég gangi með strák. Allar konur sem ég hef talað við segja að ég gangi með dreng. Það er gaman að heyra muninn á körlum og konum þegar kemur að ágiskunum á kyni barnsins.
Halli hlær t.d af þessu öllu saman og segir að þetta sé bara tölfræði. Það sé 50 % líkur á hvoru kyni fyrir sig :o)segir að það sé engan veginn hægt að sjá neitt út frá því hvernig kúlan liggi. Hann segist þó vera viss um að hann sé að fara að eignast stelpu og þar liggi engin kellingaspeki á bak við heldur blákaldar staðreyndir:o)Hann heldur því fram að það séu álög á fjölskyldunni hans. Foreldrar hans áttu bara syni og nú munu þeir bræður aðeins eignast dætur. Sem sönnun vitnar hann í bróður sinn sem á þrjár dætur og tilhneigingu móðurfjölskyldu hans til að eignast aðeins annað kynið.
Ég ætla nú bara að sjá hvað gerist eftir átta vikur. Ég ætla hvorki að mála barnaherbergið bleikt né blátt og ætla að hafa hlutlaus föt tilbúin á litla krílið þegar það fæðist. En ef við eignumst stelpu þá gæti ég alveg farið að trúa á álögin sem Halli talar um.